Innsýn í lúxussetur piparjónkunnar og vonbiðla hennar
41 sundlaug, 23 tennisvellir og fimm golfvellir.


Það má með sanni segja að tökur og framleiðsla á raunveruleikaþáttunum The Bachelorette hafi gengið brösulega, en sextánda serían af þessum vinsælu þáttum áttu að fara í loftið þann 18. maí síðastliðinn.
Sökum heimsfaraldurs COVID19 hefur frumsýningu þáttanna verið frestað fram til 13. október, en það er ekki það eina sem kom upp á við gerð þáttanna. Upprunalega átti að taka þættina upp í Ítalíu en sökum fyrrnefnds faraldurs þurfti að færa tökur alfarið til Bandaríkjanna. Þá þurfti kynnir þáttanna, Chris Harrison, að fara í tveggja vikna sóttkví í ágúst eftir að hann hjálpaði syni sínum að flytja.

Sextánda piparjónkan heitir Clare Crawley og er 39 ára hárgreiðslukona frá Sacramentó í Kaliforníu. Hún er því elsta piparjónkan í sögu þáttanna. Aðdáendur The Bachelorette og The Bachelor kannast vel við Clare en hún keppti í átjándu seríu af The Bachelor. Söguþráður þáttanna er sá sami – vonbiðlar keppast um ást piparsveins eða piparjónku.

Þó tökuliðið og keppendur hafi misst af ferð til Ítalíu þá væsti ekki um þá við tökur í Bandaríkjunum. Tökur fóru fram á lúxussetrinu La Quinta Resort & Club í La Quinta í Kaliforníu, en setrið var lokað í allt sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

Setrið teygir sig yfir fjórtán hundruð ekrur og er allt til alls á svæðinu, þar á meðal 41 sundlaug, 53 heilsulindir, 23 tennisvellir, fimm golfvellir og sjö veitingastaðir. Alls eru um átta hundruð herbergi á svæðinu og eru sum þeirra búin afgirtum sundlaugum og heita pottum. Það ætti því engum að leiðast í La Quinta og nóg af sviðsmyndum þar sem ástin gæti blossað upp á tímum COVID19.

Svo skemmir ekki fyrir að hundar eru leyfðir á setrinu, en piparjónkan á tvo slíka og hefur sagt þá vera það dýrmætasta í lífi sínu.

You must be logged in to post a comment.