Það má með sanni segja að tökur og framleiðsla á raunveruleikaþáttunum The Bachelorette hafi gengið brösulega, en sextánda serían af þessum vinsælu þáttum áttu að fara í loftið þann 18. maí síðastliðinn.

Sökum heimsfaraldurs COVID19 hefur frumsýningu þáttanna verið frestað fram til 13. október, en það er ekki það eina sem kom upp á við gerð þáttanna. Upprunalega átti að taka þættina upp í Ítalíu en sökum fyrrnefnds faraldurs þurfti að færa tökur alfarið til Bandaríkjanna. Þá þurfti kynnir þáttanna, Chris Harrison, að fara í tveggja vikna sóttkví í ágúst eftir að hann hjálpaði syni sínum að flytja.

Clare Crawley.

Sextánda piparjónkan heitir Clare Crawley og er 39 ára hárgreiðslukona frá Sacramentó í Kaliforníu. Hún er því elsta piparjónkan í sögu þáttanna. Aðdáendur The Bachelorette og The Bachelor kannast vel við Clare en hún keppti í átjándu seríu af The Bachelor. Söguþráður þáttanna er sá sami – vonbiðlar keppast um ást piparsveins eða piparjónku.

Ekki leiðinlegt að skipta Ítalíu út fyrir þetta.

Þó tökuliðið og keppendur hafi misst af ferð til Ítalíu þá væsti ekki um þá við tökur í Bandaríkjunum. Tökur fóru fram á lúxussetrinu La Quinta Resort & Club í La Quinta í Kaliforníu, en setrið var lokað í allt sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

Nóg af sundlaugum.

Setrið teygir sig yfir fjórtán hundruð ekrur og er allt til alls á svæðinu, þar á meðal 41 sundlaug, 53 heilsulindir, 23 tennisvellir, fimm golfvellir og sjö veitingastaðir. Alls eru um átta hundruð herbergi á svæðinu og eru sum þeirra búin afgirtum sundlaugum og heita pottum. Það ætti því engum að leiðast í La Quinta og nóg af sviðsmyndum þar sem ástin gæti blossað upp á tímum COVID19.

Falleg gönguleið.

Svo skemmir ekki fyrir að hundar eru leyfðir á setrinu, en piparjónkan á tvo slíka og hefur sagt þá vera það dýrmætasta í lífi sínu.

Draumastaður.