Félagar úr Hinu Íslenska Royalistafélagi horfðu saman á umtalað viðtal Opruh Winfrey við Meghan Markle og Harry prins. Frá þessu segir matgæðingurinn Albert Eiríksson á bloggsíðu sinni, Albert eldar. Segir Albert að íslenskum royalistum hafi ekki þótt mikið til viðtalsins koma.

„Satt best að segja var sumu fundarfólki öllu lokið og trúði ekki nema broti af því sem þarna kom fram, hvorki um rasisma, mannorðsmorð, „næstum misst nafnið”,  sjálfsvígshugsanir, vonda framkomu hallarfólks né öðru,“ skrifar Albert og fettir fingur út í að spyrillinn Oprah Winfrey hafi lagt sig fram við að auglýsa nýstofnuð samtök hjónanna Harry og Meghan, Archewell, í viðtalinu.

„Fólk velti fyrir sér á hvaða forsendum þau fóru eiginlega í viðtalið. Var það til að fá samúð eða sverta konungsfjölskylduna? Hafi svo verið varð þeim hjónum ekki kápan úr því klæðinu.“

Albert heldur áfram.

„Meghan sagðist lítið hafa vitað um Harry og ekki googlað hann í upphafi – trúi því hver sem vill…. Þegar hún sagði mömmu sinni frá Díönuviðtalinu fræga tóku glöggir áhorfendur eftir því að hún átti erfitt með að halda sig við grundvallarkryddin í eigin frásögn,“ skrifar hann og bætir við að íslenskir royalistar finni til með Harry prins.

Sjá einnig:

Þetta er ástæðan fyrir því að Meghan og Harry birtast aldrei í The Crown

„Royalistar finna til með Harry, telja hann sakna fjölskyldunnar á Englandi, ekki finna sig í Ameríku og velta fyrir sér daglega lífi þeirra eftir flutninginn vestur um haf. Fólk velti einnig fyrir sér ýmsu sem Oprah spurði ekki um; samband Meghan við pabba sinn, hvers vegna var honum ekki boðið til brúðkaupsins. Sambandið við mömmu hennar og systkinin.“

Færsluna má lesa hér.