Landspítali var í dag færður á neyðarstig vegna mikillar útbreiðslu COVID-19 eftir að hópsýking kom upp á Landakoti. Á Facebook-síðu Landspítalans eru birtar fjölmargar myndir af þeim umfangsmiklu ráðstöfunum sem hafa verið gerðar til að bregðast við ástandinu og eru myndirnar ansi magnaðar.

„Landspítali var sunnudaginn 25. október færður á neyðarstig, samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans sem hefur að undanförnu verið á hættustigi. Þetta er í fyrsta skipti sem Landspítali er settur á neyðarstig eftir að núgildandi viðbragðsáætlun spítalans tók gildi árið 2006. Ástæðan tengist útbreiddu klasasmiti á Landakoti meðal sjúklinga og starfsfólks, sem teygir anga sína víðar. Um 50 sjúklingar og 30 starfsmenn hafa nú þegar greinst með Covid-19 út frá klasasmiti sem kom upp á Landakoti,“ stendur í Facebook-færslunni.

Hver krókur og kimi þrifinn.

„Gríðarlega umfangsmiklar ráðstafanir hafa nú þegar verið gerðar á Landakoti þar sem öflugt starfsfólk leggur nótt við nýtan dag til að vinna sig gegnum það alvarlega verkefni sem klasasmit af þessu tagi er. Þorkell Þorkelsson ljósmyndari fór á vettvang 24. október og myndaði atganginn, en þar má meðal annars sjá sótthreinsunarteymi að störfum, smiði í nauðsynlegum framkvæmdum til að styrkja sóttvarnir og starfsfólkið sjálft að sinna sínum viðkvæma sjúklingahópi af umhyggju og fagmennsku sem fyrr,“ er bætt við.

Smiðir að störfum.

Sjá einnig:

Svona er lífið á gjörgæsludeild Landspítalans: „Vertu heima fyrir okkur“

„Neyðarstig er hæsta viðbúnaðarstig á Landspítala og þýðir að öllu er tjaldað til, bæði innan og utan spítalans, til að takast á við stóra áskorun í starfseminni. Mikilvægt sem aldrei fyrr er að starfsfólk sinni áfram ströngum sóttvörnum, innan sem utan Landspítala. Heilbrigðisstarfsfólk er í framlínu faraldursins og hópsmit innan Landspítala leiða af sér mikla ögrun við mönnun. Áríðandi er að starfsfólk mæti ekki til vinnu með nokkur einkenni sem gætu bent til smits og láti strax vita af slíku svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana.“

INNSÝN // LANDSPÍTALI Á NEYÐARSTIGI VEGNA KLASASMITS – MIKLAR VARÚÐARRÁÐSTAFANIR Á LANDAKOTI
Landspítali var sunnudaginn…

Posted by Landspítali on Sunday, October 25, 2020