Hin ellefu ára Betty June Binnicker og hin sjö ára Mary Emma Thames fundust látnar í bænum Alcolu í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum í mars árið 1944. Líkfundurinn vakti óhug, en stúlkurnar tvær voru barðar til dauða. Óljóst var hvers konar vopn var notað við verknaðinn en ku það hafa svipað til hamars. Báðar stúlkurnar höfuðkúpubrotnuðu og benti margt til þess að eldri stúlkan hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Alcolu var afar hefðbundinn smábær í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Á þessum tíma var enn mikill aðskilnaður á milli hvítra og svartra og bænum í raun skipt í tvennt út frá hörundslit fólks. Takmörkuð samskipti voru á milli svartra og hvítra en lík Betty og Mary fundust á svæði í Alcolu þar sem þeldökkir bjuggu. Því var það kappsmál lögreglu að finna þeldökkan sökudólg.

Leituðu að ástríðublómum

Ekki leið á löngu þar til athygli lögreglu á staðnum beindist að hinum fjórtán ára George Junius Stinney, sem var svartur. George bjó með föður sínum, George Stinney eldri, móður sinni Aimé, bræðrum sínum John, 17 ára og Charles, 12 ára og systrum sínum Katherine, 10 ára og Aimé, 7 ára. Þegar að stúlkurnar tvær fundust látnar upphófst mikil leit á svæði þeldökkra í bænum Alcolu og tók George eldri þátt í leitinni. Eina vísbending sem lögreglan hafði var að síðast hafði sést til stúlknanna á reiðhjólum sínum í leit að blómum. Þær hjóluðu framhjá Stinney-heimilinu í þessari leit sinni og spurðu George yngri og systur hans Aimé hvar væri hægt að finna ástríðublóm. Síðan sáust þær ekki meir.

Enginn lögfræðingur – engir foreldrar

George yngri var handtekinn, ásamt eldri bróður sínum Johnny. Voru þeir báðir grunaðir um verknaðinn, en stuttu eftir handtökuna var Johnny sleppt. George yngri var ekki svo heppinn. Hann fékk ekki einu sinni að hitta og tala við foreldra sína, þó hann væri bara barn. Eftir nokkra daga í haldi gaf lögreglan á svæðinu það út að George yngri hefði játað glæpinn og leitt lögregluþjóna að morðvopninu. Undirrituð yfirlýsing þess efnis hefur hins vegar aldrei komið í leitirnar og sagði George yngri að lögregluþjónar hefðu svelt hann og mútað honum með mat svo hann myndi játa.

Handtaka George yngri hafði veigamikil áhrif á fjölskyldu hans. Faðir hans missti vinnuna og fjölskyldan missti húsnæðið sem hún bjó í. Foreldrar hans og systkini óttuðust um líf sitt og urðu fyrir miklu aðkasti. Til að bæta gráu ofan á svart máttu foreldrar hans ekki hitta hann né sjá fyrr en réttarhöldin hófst, en George yngri var haldið í einangrun í 81 dag fyrir réttarhöldin, í fangelsi í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá Alcolu. Foreldrar George yngri fengu ekki að vera viðstaddir þegar að sonur þeirra var yfirheyrður, né fékk George yngri lögfræðing til að ganga með sér í gegnum þessar hörmungar.

Hér er George yngri í miðjunni og stúlkurnar tvær beggja megin við hann.

Dauðarefsing

Það má með sanni segja að réttarhöldin yfir George yngri hafi tekið fljótt af. Kviðdómendur voru valdir, réttað yfir drengnum og hann dæmdur til dauða – allt á einum degi. Þegar hingað er komið við sögu er rétt að árétta að engin haldbær sönnunargögn tengdu George yngri við morðin. Fyrir dómi var George yngri kominn með lögfræðing en það var lítið gagn í honum þar sem hann kallaði ekki til neinna vitna og mótmælti litlu sem engu sem haldið var fram í réttarsalnum. Hann var því skárri en enginn.

Það tók kviðdómendur, sem allir voru hvítir þar sem svartir máttu ekki sitja í kviðdóm á þessum tíma, aðeins tíu mínútur að fella dóm yfir George yngri. Hann var sekur og dæmdur til dauða. Sendur beint í rafmagnsstólinn. Lögfræðingur hans reyndi ekki að áfrýja dómnum. Hins vegar reis samfélag svartra upp með foreldrum George yngri og biðlaði til ríkisstjórans, Olin D. Johnston, að gefa drengnum tækifæri með tilliti til þess að hann var bara barn. Svar Johnston var eftirfarandi:

„Ykkur gæti þótt áhugavert að vita að Stinney drap yngri stúlkuna til að nauðga eldri stúlkunni. Síðan drap hann eldri stúlkuna og nauðgaði henni. Tuttugu mínútum seinna reyndi hann að nauðga henni aftur en líkið var of kalt. Hann játaði þetta allt sjálfur.“

Vissulega hafði ákæruvaldið velt yfir því vöngum hvort stúlkunum hefði verið nauðgað, annað hvort fyrir eða eftir andlát, en það var aldrei staðfest.

Brennt hold og streymandi tár

George Junius Stinney var því tekinn af lífi þann 16. júní árið 1944, klukkan 19.30. Á tímanum sem leið á milli réttarhalda og aftöku fengu foreldrar hans eingöngu að hitta hann einu sinni. George yngri var með Biblíu í hönd á meðan á öllu þessu stóð, allt frá handtöku til aftöku. Þegar lögregluþjónarnir leiddu hann í rafmagnsstólinn hrifsuðu þeir Biblíuna af honum og notuðu hana sem sessu, því George litli var aðeins 155 sentímetrar á hæð og rúm 40 kíló. Faðir hans fékk að segja nokkur lokaorð við son sinn. Síðan var settur múll á George yngri og þá brast hann í grát. Á meðan hann kjökraði var gríma sett yfir andlit hans, gríma sem var hönnuð fyrir fullvaxta fólk og passaði því ekki á fíngert andlit unga drengsins. Þegar að rafbylgjurnar fóru um táningslíkamann datt gríman af andliti George yngri. Brennt hold, tárin streymandi, munnvatn lekandi úr munnvikunum. George yngri var úrskurðaður látinn átta mínútum síðar. Hann er grafinn í ómerktri gröf í Sumter í Suður-Karólínu. George yngri en yngsta manneskjan til að vera tekin af lífi í Bandaríkjunum.

Aftaka George yngri sett á svið. Mynd: Skjáskot / YouTube

Grimm og óvenjuleg refsing

Sextíu árum síðar, árið 2004, vakti mál George yngri athygli sagnfræðingsins George Frierson, sem ólst upp í Alcolu. Hann viðaði að sér miklum upplýsingum um málið og náði það augum lögfræðinganna Steve McKenzie og Matt Burgess. Þeir þrír, ásamt nokkrum fleirum, grófu og grófu þar til þeir fundu vitni og sönnunargögn sem gætu sýknað George yngri af þessum voðaverkum. Sótt var um ný réttarhöld í málinu í lok október árið 2013 og málið opnað á nýju í byrjun árs 2014. Dómarinn Carmen Mullen samþykkti hins vegar ekki að halda ný réttarhöld. Í staðinn ógilti hún dauðadóminn yfir George yngri. Í dómsgögnum segir Mullen að George yngri hafi ekki fengið réttlát réttarhöld og að stjórnarskrávarin réttindi hans hefðu verið brotin. Þá bætti hún einnig við að það að taka fjórtán ára pilt af lífi væri „grimm og óvenjuleg refsing“, þó hún útilokaði ekki að George yngri hefði í raun framið glæpinn.

„Ekkert réttlætir að fjórtán ára barn sé ákært, réttað yfir því og það dæmt og tekið af lífi á 80 dögum,“ skrifar hún í ákvörðun sinni. „Það var lítið gert fyrir þetta barn þegar að líf þess hékk á bláþræði.“