Þátttakandi í sjónvarpsþáttunum Wipeout lést stuttu eftir að hann lauk keppni í þáttunum í síðustu viku. Maður var á fertugsaldri en ekki er búið að gefa upp nafn hans.

Maður var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í Los Angeles rétt fyrir klukkan sjö að kvöldi að staðartíma á miðvikudag. Óljóst er hver dánarorsökin er. Sagt er frá málinu á vef Huffington Post. Þátttakandinn komst í gegnum þrautabraut í þáttunum og þurfti síðan læknisaðstoð. Starfsmaður við þættina aðstoðaði manninn þar til sjúkraliðar mættu á vettvang og fluttu hann á sjúkrahús.

Sjónvarpsþátturinn Wipeout varð mjög vinsæll frá árunum 2008 til 2014 og nýlega var blásið í hann lífi aftur af fyrirtækinu Endemol Shine North America. Í kjölfar andlátsins var hætt við tökur á fimmtudag og föstudag í síðustu viku og áætlað er að frí verði frá tökum í næstu viku.

Allir þátttakendur Wipeout þurfa að gangast undir læknisskoðun fyrir þátttöku en fjölmargir hafa slasast í brautinni. Íslensk útgáfa af þáttunum var sýnd á Stöð 2 fyrir um áratug og þá slasaðist slökkviliðsmaðurinn Ólafur Högni Ólafsson alvarlega, en þættirnir voru teknir upp í Argentínu. Ólafur missti takið í snúningstæki sem hét Spinning Dummies, féll fram fyrir sig og hringsnerist í tæpa mínútu áður en tækið var stöðvað. Ólafur var fluttur á gjörgæsludeild sjúkrahúss en það blæddi inn á heila hans og augu hans urðu rauð af blóði.