Saga þessi gerist þegar söguhetjan er í kennaranámi og hefur verið úthlutað æfingakennslu í 5. bekk í einum af skólum Reykjavíkurborgar.

Mætti hún til vinnu sinnar vel undirbúin og allt gekk ljómandi vel. Í þessum bekk voru valinkunnir snillingar, margir afar hressir og orkumiklir, sem þeir áttu eftir að sanna betur síðar á lífsleiðinni.

Að skóladegi loknum þurfti söguhetjan að taka strætó til síns heima því ekki áttu nemendur almennt annarra kosta völ en að nota almenningssamgöngur, sem voru satt að segja miklum mun aðgengilegri en á vorum tímum.

Eftir litla bið eftir strætó gengur söguhetjan inn í vagninn en ekkert sæti er laust, sem var alvanalegt á annatíma. Smeygir hún sér gegnum mannhafið haldandi í pípuna í þaki vagnsins. Sér hún þá tvo af nemendum sínum úr 5. bekk sitja hlið við hlið í vagninum. Er þeir koma auga á hana heyrir hún annan hvísla:

„Við skulum standa upp fyrir kennaranum,“ sem þeir gerðu, ekki annar heldur báðir.

Er skemmst frá því að segja að aldrei á ævi söguhetjunnar, sem nálgast óðfluga áttræðisaldurinn, hefur henni fundist hún eldri en á þessu augnabliki. Einnig ber að geta þess að fyrr á árum var ætlast til að börn stæðu upp fyrir eldra fólki í strætó og það gerði söguhetjan iðulega því oft var margt um manninn þegar fólk var að koma sér heim úr vinnunni seinnipart dags og fara í vinnu að morgni.