Donald Trump, Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í Hvíta húsinu í gær. Eins og flestir vita er enn verið að telja atkvæði í forsetakosningunum vestan hafs. Mjótt er á munum og greinir spekingum á hvor fer með sigur af hólmi; Donald Trump eða mótframbjóðandi hans Joe Biden.

Trump hafði lítið látið fyrir sér fara síðan á kjördegi síðasta þriðjudag og höfðu samskipti hans við bandarísku þjóðina einskorðast við hástafafærslur á Twitter. Joe Biden hefur hins vegar reglulega ávarpað þjóðina og þakkaði henni fyrir biðlundina er kosningaseðlarnir eru taldir.

Ávarp Trump í gær hefur vakið upp ýmis viðbrögð meðal allra heimsbúa og eru Íslendingar þar engin undantekning. Í ávarpinu fór hann mikinn um meint kosningasvindl og talaði niður póstkosningaseðla eins og hann hefur margoft áður gert. Tíundaði hann málsóknir vegna meints svindls og ljóst er að Trump ætlar ekki að játa sig sigraðan þó svo Biden verði sigurvegari þegar að öll atkvæði hafa verið talin. Það var lítið annað sem komst að í ávarpinu og Trump missti ekki af tækifærinu til að kenna könnunum og fjölmiðlum um ýmislegt sem hefur misfarist í þessum kosningum að hans mati. Eftir ávarpið skakklappaðist Trump af sviðinu án þess að taka við spurningum frá blaðamönnum.

Ljósmyndarinn Evan Vucci hjá AP fréttastofunni náði tímamótamynd af Trump í Hvíta húsinu í gær sem margir telja vera fréttamynd ársins. Myndina má sjá hér fyrir neðan og er hún ansi lýsandi fyrir ávarpið og kosningarnar:

Eins og áður segir hefur ávarpið vakið upp sterk viðbrögð, en hér fyrir neðan má sjá hvað sumir Íslendingar á Twitter höfðu um málið að segja: