Donald Trump, Bandaríkjaforseti hélt umdeildan fjöldafund í Tulsa um helgina, þar sem mun fámennara var en forsetinn átti von á. Teymi forsetans var búið að gefa út að um milljón manns hefði sýnt fundinum áhuga, en þegar að kom til hans mættu aðeins nokkur þúsund stuðningsmenn.

Trump hefur kennt mótmælendum og fjölmiðlamönnum um hve fáir mættu, en ungmenni á Tik Tok virðast hafa átt einhverja sök í málinu því mikið af áhrifavöldum á samfélagsmiðlinum hvöttu til þess að fólk myndi taka frá miða á fundinn en mæta síðan ekki í mótmælaskyni. Vildu ungmennin til að mynda fordæma viðbrögð forsetans við mótmælum Black Lives Matter-hreyfingarinnar vegna morðsins á George Floyd og hvernig forsetinn hefur tekið á heimsfaraldri COVID-19.

Þessi fjöldafundur var sá fyrsti af mörgum sem Trump heldur í kosningabaráttunni til forsetakjörs en einnig fyrsti stóri viðburðinn hans síðan að kórónaveiran lamaði bandarískt þjóðfélag.

Trump fór síðan í þyrluferð aftur í Hvíta húsið og ganga hans úr þyrlunni í musteri sitt hefur vakið mikla athygli á Twitter. Tístarar hafa stráð salti í sár forsetans og gert stólpagrín að því hve eyðilagður hann virtist vera eftir fundinn sem átti að vera risastór (e. huge) en varð agnarsmár. Sumir hafa jafnvel splæst inn sorglegri tónlist á myndbrotið sem sýnir gönguna löngu í Hvíta húsið.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur af skondnustu tístunum: