Það dró til tíðinda í baráttunni gegn COVID-19 í vikunni þegar að lyfjafyrirtækið Pfizer tilkynnti að bóluefni sem það hefur verið með í þróun veiti 90 prósent vörn gegn veirunni. Bóluefnið er þróað af lækninum Ugur Sahin og lyfjafyrirtækinu hans BioNTech. Fyrirtækið stofnaði hann með eiginkonu sinni, lækninum Özlem Türeci, en vonir eru bundnar við að hægt verði að gefa fólki fyrstu skammtana af bóluefninu fyrrnefnda strax eftir áramót.

Í grein í New York Times kemur fram að Dr. Sahin hafi staðið á sviði á ráðstefnu í Berlín í Þýskalandi fyrir tveimur árum og fullyrt að fyrirtæki hans gæti notað ríbósakjarnasýrutækni til að þróa bóluefni á hraðvirkan máta ef heimsfaraldur myndi brjótast út. Á þessum tíma var BioNTech nánast óþekkt og sá aðallega um að þróa krabbameinsmeðferðir. Dr. Sahin virðist hafa verið sannspár, en hann hóf þróun á bóluefni við COVID-19 í janúar, um leið og fyrstu fregnir frá Kína um sjúkdóminn bárust.

„Þetta gæti verið upphafið að endinum á COVID tímabilinu,“ lét Dr. Sahin hafa eftir sér í viðtali á þriðjudag þegar að Pfizer og BioNTech tilkynntu um bóluefnið, við mikinn fögnuð víða um heim. Hugsanlega væri komin hér lækning við sjúkdómi sem hefur dregið meira en milljón manns til dauða á heimsvísu.

En hvaða fólk er þetta, þessi hjón sem hafa þróað bóluefni sem gæti komið lífinu í heiminum í samt horf?

Dr. Sahin er 55 ára og fæddist í Iskenderun í Tyrklandi. Fjölskylda hans flutti til Kölnar í Þýskalandi þegar hann var fjögurra ára og unnu foreldrar hans í bílaverksmiðju Ford. Þegar Dr. Sahin óx úr grasi dreymdi hann um að verða læknir og lærði síðar lækningar við háskólann í Köln. Árið 1993 hlaut hann doktorsgráðu frá háskólanum fyrir vinnu við ónæmismeðferðir í æxlisfrumum. Snemma á ferlinum kynntist hann Dr. Türeci. Hennar draumar í æsku voru frábrugðnir draumum Dr. Sahin. Hún var staðráðin í að verða nunna en endaði í læknisfræði. Dr. Türeci er 53 ára og er fædd og uppalin í Þýskalandi. Hún er dóttir tyrknesks læknis sem flutti frá Istanbúl til Þýskalands.

Á rannsóknarstofunni.

Dr. Sahin og Dr. Türeci eru afar samrýnd hjón og má segja að vinnan sé líf þeirra. Til að sanna þá fullyrðingu er sagt frá því í grein New York Times að á brúðkaupsdaginn, eftir að þau höfðu játast hvort öðru, hefðu þau snúið aftur á rannsóknarstofuna og unnið.

Meðal þeirra ríkustu

Í byrjun ferilsins einblínd þau á rannsóknir og kennslu, þar á meðal við háskólann í Zurich í Sviss. Árið 2001 stofnuðu þau fyrirtækið Ganymed Pharmaceuticals og þróuðu lyf við krabbameini með því að nota einstofna mótefni. Mörgum árum síðar stofnuðu þau BioNTech með það markmið að byggja upp stórt, evrópskt lyfjafyrirtæki. Það má með sanni segja að BioNTech hafi gengið vel, jafnvel áður en faraldurinn skall á. Hjónin hafa safnað milljónum dollara inn í fyrirtækið og eru nú tæplega tvö þúsund manns í vinnu hjá BioNTech. Fyrirtækið er með skrifstofur í ýmsum borgum í Þýskalandi sem og í Cambridge í Bandaríkjunum. Árið 2018 hóf BioNTech samstarf við Pfizer og í fyrra fjárfestu Bill og Melinda Gates 55 milljónum dollara í fyrirtækinu til að fjármagna rannsóknir á meðferðum við HIV og berklum.

Dr. Sahin og Dr. Türeci seldu Ganymed Pharmaceuticals árið 2016 fyrir 1,4 milljarð Bandaríkjadollara.BioNTech fór á markað í fyrra og hefur virði fyrirtækisins á síðustu mánuðum farið yfir 20 milljarða dollara. Það þýðir að hjónin Dr. Sahin og Dr. Türeci eru meðal efnuðustu Þjóðverjanna.

Þó þau séu metin á fúlgur fjár endurspeglast það ekki í lífsstílnum. Hjónin búa í látlausri íbúð með unglingsdóttur sinni. Íbúðin er nálægt skrifstofu þeirra og hjóla þau í vinnuna þar sem þau eiga ekki bíl. Vísindi eru þeirra ær og kýr. Eftir þrotlausa vinnu kom það í ljós síðastliðinn sunnudag að bóluefnið sem BioNTech var búið að vera að þróa bróðurpart ársins gæti verið lausnin við heimsfaraldri COVID-19 sem hefur leikið heimsbyggðina grátt. Þegar að hjónin Dr. Sahin og Dr. Türeci fengu fregnirnar fögnuðu þau með því að brugga sér tyrknest te á heimili sínu.

„Við fögnuðum, auðvitað,“ segir Dr. Sahin í grein New York Times. „Þetta var léttir.“