Fátt er um meira talað nú en viðtal Opruh Winfrey við Meghan Markle og Harry prins. Meðal þess sem Harry lét hafa eftir sér í viðtalinu var að þau Meghan hefðu ekki getað yfirgefið bresku konungsfjölskylduna ef ekki hefði verið arfinn frá móður hans, Díönu prinsessu. Breska konungsfjölskyldan hætti að greiða Harry laun á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020 og þurfti Harry því að greiða fyrir öryggisgæslu fyrir sig og fjölskyldu sína úr eigin vasa.

„Ég á arfinn frá móður minni og án hans hefðum við ekki getað gert þetta,“ sagði Harry í viðtalinu fræga.

Samkvæmt tímaritinu Forbes fékk Harry rúmlega tíu milljónir punda í arf frá móður sinni, um tvo milljarða króna. Arfurinn var greiddur út árið 2014, þegar að Harry varð þrítugur. Arfinn átti að greiða út þegar að Harry varð 25 ára, en því var frestað og því gátu peningarnir safnað vöxtum þessi fimm ár sem liðu. Sama gilti um bróður Harry, Vilhjálm.

Sjá einnig:

Íslenskir royalistar finna til með Harry – „Trúði ekki nema broti af því“

Auk bræðranna fékk Paul Burrell, bryti Díönu, einnig arf sem og sautján guðbörn hennar samkvæmt skýrslu Worthy.

Dánarbúið var metið á tæplega fjóra milljarða króna, en Díana lést þann 31. ágúst árið 1997 í hræðilegu bílslysi.