Nú þegar tveimur helgum af tíu er lokið af sumartónleikaröð Secret Solstice – Reykjavik Live – sem fram fer í garðinum á Dillon allar helgar í sumar er heldur betur gefið í því að nú hefur Secret Solstice bætt við enn fleiri listamönnum sem og bætt við föstudeginum 21. ágúst.

Hægt er að nálgast allar upplýsngar um hátíðina og dagskrána  Hér

Af þeim sem bætast við ber fyrst að nefna hljómsveitina Vök sem hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarið, bæði hér heima og erlendis. Hljómsveitin og meðlimir fengu þrenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum nú í ár. Plata hljómsveitarinnar In The Dark var valin poppplata ársins ásamt því sem  söngkona sveitarinnar Margrét Rán Magnúsdóttir var bæði valin söngkona ársins sem og lagahöfundur ársins. Hljómsveitin mun koma fram sunnudaginn 9. ágúst ásamt hljómsveitunum We Made God, Afro/Cuban Kvartett Einars Scheving, Celebs og Exes, en Exes er ný hljómsveit sem er skipuð þeim Jóni Má úr Une Misere, Valla úr Mammút og Árna úr Rythmatik.

Stærsti tónlistarviðburður ársins verður ókeypis í garðinum á Dillon Whiskey Bar í sumar

Það er ekki bara hljómsveitin Vök sem bætist við dagskrána, heldur bætist við heill dagur líka, en umboðsskrifstofan Iceland Sync tekur yfir garðinn föstudaginn 21. ágúst með heldur betur glæsilega dagskrá en Krassasig, SunCity, Cell7 og Auður munu stíga á stokk það kvöld.

Auður hefur verið  einn heitasti tónlistarmaður landsins eftir að platan Alone kom út árið 2017. Lagið “Enginn eins og þú” sem kom út árið 2019 gerði svo allt vitlaust, var eitt allra vinsælasta lag ársins og var lagið valið lag ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum, þá var hann einnig valinn flytjandi ársins.

Auður & Mezzoforte – Hún veit hvað ég vil

Cell7 þekkja allir sem þekkja sögu hip hop á Íslandi enda er hún ekki bara af ein af frumkvöðlum þeirrar senu á Íslandi heldur ein stærsta stjarna hennar sömuleiðis. Hún gaf út plötuna „Is anybody listening“ sem fékk frábærar viðtökur og var valin plata ársins í flokki rapps á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Cell7 – City Lights

Sólborg Guðbrandsdóttir eða SUNCITY, er 23 ára íslensk tónlistarkona, aðgerðarsinni og fyrirlesari.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur SUNCITY vakið mikla athygli fjölmiðla undanfarin ár. Með verðlaunum og tilnefningum sem hrannast upp fyrir góðgerðarstarfsemi sína og aktívísma hefur hún líka skapað sér tónlistarferil, en hún hefur sungið, spilað á píanó, rappað og skapað síðan hún var  barn. Vinnusemi hennar hefur komið henni á þann stað að síðasta föstudag, 10. Júlí innsiglaði hún samning við Sony Music Denmark með útgáfu fyrstu smáskífu sinni „NAKED“

SUNCITY – NAKED

 

Krassasig er listamannsnafn tónlistar- og fjöllistamannsins, Kristins Arnars sem hefur verið að gera það gott síðan hann gaf út plötuna MMMM með hljómsveitinni og fjöllistahópnum Munstur. Krassasig gerir einstaklega vandað draumkennt tilrauna popp með einlægum texta. Lögin “Brjóta heilann” og “Hlýtt í hjartanu” náðu bæði miklu flugi á Rás 2 og streymisveitum. Var hann svo tilnefndur sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019