Þann 7. október síðastliðinn sendi ég bréf til forseta Íslands, forsætisráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Bréfið birti ég hér fyrir neðan, en það var sent í þeirri von að koma málum barna á dagskrá innan stjórnkerfisins. Þegar ég var ekki búinn að fá svar við bréfinu fimm dögum síðar, eða þann 12. október, sendi ég það á formenn allra þingflokka og mennta- og menningarmálaráðherra.

Ég hef ekki enn fengið nein viðbrögð frá stjórnvöldum vegna þessa bréfs og því birti ég það hér, með von um að sem flestir deili og hjálpi til við að þrýsta á stjórnvöld að opna augun fyrir því að kerfið á Íslandi er alls ekki hannað fyrir börn.

——-

Komið þið sæl

Guðmundur Ragnar Einarsson heiti ég. Ég er barn alkóhólista og hef verið að opna á mína sögu undanfarið á vefmiðli sem ég á sem heitir Fréttanetið. Hér fyrir neðan getið þið séð nokkra pistla eftir mig:

Kyssti deyjandi föður á ennið og fyrirgaf honum

Að eiga foreldri sem fremur sjálfsmorð

Einn besti dagur í lífinu mínu var líka einn sá versti

 

 

Þá birtist ítarlegt viðtal við mig í Íslandi í dag í vikunni sem sjá má hér.

Það hefur hjálpað mér mikið að opna á þessa sögu en ég hef einnig eytt miklum fjármunum í alls kyns þerapíu til að gera upp mína fortíð. Það sem sló mig eftir að viðtalið í Íslandi í dag var birt var hve margir höfðu samband við mig og höfðu svipaða sögu að segja og ég. Fólk sem ég þekkti ekkert, fólk sem er orðið fullorðið og uppfullt af reiði. Sumt af þessu fólki er ekki eins „heppið“ og ég að hafa efni á að leita sér aðstoðar. Því situr það heima hjá sér, sumt jafnvel óvinnufært vegna áfallastreituröskunar og kvíða, og veit ekki hvernig á að vinna sig úr þessum áföllum í æsku.

Ég er auðvitað ekki maður til að ráðleggja einum né neinum. Ég er ekki faglærður í slíku og á nóg með að vinna úr mínum eigin áföllum. Mér finnst það mjög gagnrýnivert að börn sem alast upp í slíku umhverfi sem einkennist af ofbeldi og rugli fái litla sem enga aðstoð. Þessi börn fara út í lífið með brenglaða sjálfs- og heimsmynd, kann ekki muninn á réttu og röngu og því miður fara margir niður mjög hættulega og dimma leið. Ef að fólk nær að halda sig á beinu brautinni er lítið um úrræði á fullorðinsárum, og þau sem eru í boði kosta mikinn pening. Ég veit að endurgreiðsla frá stéttarfélögum er í boði en það þarf samt ávallt að borga fyrir þjónustuna fullu verði áður en maður á möguleika á slíkum endurgreiðslum.

Það er skammarlegt að börn geti verið beitt ofbeldi af foreldrum sínum, bæði andlega og líkamlega, og sloppið við refsingu með því einu að fara í meðferð eða afvötnun. Þegar að ókunnugur beitir barn ofbeldi er honum refsað. Þegar að foreldri gerir slíkt hið sama er því klappað á bakið, því hjálpað við að „greiða úr“ sínum málum og fær síðan að umgangast barnið sitt eins og ekkert hefði í skorið. Barnið fær litla sem enga aðstoð og þarf síðan að fyrirgefa foreldrinu ofbeldið. Þetta er allt mjög bogið, finnst ykkur það ekki?

Ég hef opnað á mína sögu í þeirri von að hjálpa öðrum en einnig í þeirri von að fleiri stígi fram. Það þarf að halda betur utan um börn í þessari aðstöðu. Þau fæðast í mínus og það þarf að koma þeim yfir núllið og yfir í plús. Foreldrar sem eru ekki hæfir í því hlutverki eru ekki rétta fólkið í það hlutverk. Kerfið þarf að vera hannað fyrir börnin. Þeim þarf að vera klappað á bakið. Það þarf að hjálpa þeim að vinna út úr þessum hræðilegu áföllum. Því þegar að uppi er staðið þá muna foreldrarnir ekki helminginn af því sem þeir gera en börnin muna allt.

Ég held að með því að hlúa betur að þessum börnum og gefa þeim tækifæri til að lifa betra, heilbrigðara lífi gætum við minnkað glæpatíðni og fangelsi landsins yrðu ekki svo þéttsetin. Ég held að það sé líka hægt að forða mörgum frá því að lenda inni í bótakerfinu, því ég þekki það af eigin raun hve erfitt það er að halda áfram og halda vinnu þegar að kvíði og áfallastreitaröskun banka reglulega upp á.

Ég veit að öll úrræði kosta peninga, en ég held líka að þegar að uppi er staðið spari þjóðfélagið gríðarlega fjármuni á því að grípa börn strax í æsku í staðinn fyrir að láta þau velkjast um í samfélaginu afskiptalaus. Þessi börn vaxa úr grasi og verða fullorðinn og geta orðið mjög dýrmætir þjóðfélagsþegnar ef þeim eru rétt verkfærin til að skila skömminni og gera eitthvað við líf sitt.

Því kalla ég eftir að þessi málaflokkur verði grandskoðaður og allt verklag innan barnaverndarkerfisins endurskoðað. Ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum í þessar endurskoðun ef þess er óskað. Á þessum tímum heimsfaraldurs er sérstaklega mikilvægt að beina sjónum okkar að börnum því að tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað gríðarlega og símalínur Rauða krossins rauðglóandi.

Ekki snúa baki við börnunum og láta sem þau séu ekki til. Það kemur ykkur í koll síðar meir.

Virðingarfyllst,

Guðmundur Ragnar Einarsson