Lögreglumennirnir fjórir sem urðu blökkumanninum George Floyd að bana fyrir rúmri viku hafa allir verið ákærðir fyrir verknaðinn.

Enn eitt ömurlega lögreglumorðið í Bandaríkjunum

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem upprunalega var ákærður fyrir morð af þriðju gráðu, hefur nú verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu, og ákæran því hert. Hinir þrír lögreglumennirnir hafa allir verið ákærðir fyrir sinn þátt í morðinu á Floyd, sem hefur hrundið af stað mótmælaöldu vestan hafs, eins og líklega hefur ekki farið framhjá neinum.

En hverjir eru þessir fjórir lögreglumenn hjá lögregluembættinu í Minneapolis? Fréttanetið kannaði málið.

Derek Michael Chauvin, 44 ára

Starfsaldur í lögreglunni: 19 ár
Möguleg fangelsisvist: 75 ár

Chauvin er eins og áður segir ákærður fyrir morð af annarri gráðu. Ef hann verður dæmdur gæti hann átt yfir höfði sér 75 ára fangelsisvist. Það var Chauvin sem þrýsti hnénu á sér á háls Floyd á meðan Floyd lá á grúfu á jörðinni í handjárnum.

George Floyd dó áður en sjúkraliðar mættu á staðinn

Chauvin gekk til liðs við lögregluna í Minneapolis árið 2001. Hann hefur fengið á sig tólf formlegar kvartanir í starfi. AP fréttastofan segir frá kvörtun frá árinu 2007, þeirri einu af þessum tólf sem hefur verið gerð opinber. Í þeirri kvörtun er Chauvin sakaður um að draga konu úr bíl sínum er hann stöðvaði bifreiðina í reglubundnu hraðaksturseftirliti. Rannsakaendur mátu það sem svo að Chauvin hefði misbeitt valdi sínu við handtökuna og var hann ávíttur fyrir að hafa ekki kveikt á myndavél í lögreglubílnum þegar hann stöðvaði konuna.

Samkvæmt frétt Star-Tribune fékk Chauvin viðurkenningar fyrir hugrekki árið 2006 og árið 2008. Í bæði skiptin náði hann að fella grunaða og vopnaða einstaklinga með því að skjóta á þá. Chauvin fékk tvær orður í viðbót, árin 2008 og 2009, fyrir að tækla grunaðan einstakling á flótta og fyrir að koma gengjameðlimum í varðhald er hann var við vinnu á næturklúbbi í Minneapolis, þeim sama og Floyd vann á.

Eiginkona Chauvin sótti um skilnað stuttu eftir að hann var handtekinn fyrir morðið á Floyd og ætlar sér að breyta um eftirnafn.

Thomas Kiernan Lane, 37 ára

Starfsaldur í lögreglunni: 1 1/2 ár
Möguleg fangelsisvist: 50 ár

Lane er einn af tveimur lögreglumönnum sem hjálpaði til við að halda Floyd niðri. Hann á yfir höfði sér fimmtíu ára fangelsisdóm, verði hann dæmdur fyrir verknaðinn.

Lane gekk til liðs við lögregluna í Minneapolis snemma árs 2019 og varð fullgildur lögreglumaður fyrir hálfu ári síðan. Á þessum stutta tíma í lögregluliðinu hefur aldrei verið kvartað undan störfum hans.

Lane útskrifaðist úr háskólanum í Minnesota og vann til að mynda sjálfboðastörf með því að sjá um kennslu fyrir unglinga frá Sómalíu.

J. Alexander Kueng, 26 ára

Starfsaldur í lögreglunni: 3 mánuðir
Möguleg fangelsisvist: 50 ár

Kueng er ákærður fyrir það sama og Lane og á einnig yfir höfði sér fimmtíu ára fangelsisdóm fyrir sinn þátt í morðinu á Floyd.

Kueng er einnig nýr í lögregluliðinu í Minneapolis og lauk reynslutíma sínum hjá lögreglunni fyrir aðeins þremur mánuðum síðan.

Kueng útskrifaðist frá háskólanum í Minnesota árið 2018, en á meðan hann stundaði nám þar vann hann við öryggisvörslu á háskólasvæðinu í hlutastarfi.

Tou Thao, 34 ára

Starfsaldur í lögreglunni: 12 ár
Möguleg fangelsisvist: 50 ár

Thao er einnig ákærður fyrir að taka þátt í því að ráða Floyd af dögum og á yfir höfði sér fimmtíu ára fangelsisvist. Thao gekk til liðs við lögregluna í Minneapolis árið 2008, en þá í hlutastarfi á meðan hann kláraði háskólanám.

Áður en Thao réð sig til lögreglunnar vann hann til að mynda sem öryggisvörður, við áfyllingar í stórmarkaði og á skyndibitastaðnum McDonald’s.

Tímaritið PEOPLE segir frá því að sex sinnum hafi verið kvartað yfir störfum Thao hjá lögreglunni. Lögreglan hefur aldrei birt þessar kvartanir opinberlega en samkvæmt dómsgögnum frá árinu 2017 var hann sakaður um óhóflegt ofbeldi árið 2014 við handtöku á manni. Í gögnunum er Thao og annar lögreglumaður sakaðir um að stöðva mann sem var á leið inn í hús kærustu sinnar. Maðurinn hélt því fram að lögreglumennirnir hefðu gengið í skrokk á honum, með þeim afleiðingum að tennur hans brotnuðu. Um málið var samið utan dómsstóla og fékk maðurinn 25 þúsund dollara í bætur, rúmar þrjár milljónir króna.